EFTIR TANNDRÁTT
Leiðbeiningar eftir tannúrtöku og skurðaðgerðir í munni
Við tannúrtöku og skurðaðgerðir í munni myndast sár, sem ekki er hægt að hirða um á sama hátt og venjulegt sár á húð, þ.e. með sáraumbúðum. Ráðlegt er því að halda kyrru fyrir og hvílast, til að sárgræðslan fari fram á sem eðlilegastan hátt. Opnar blóðæðar lokast þá betur og blóðlifur fær tíma til að myndast.
Forðist að sleikja eða sjúga sárið, svo og að snerta það með fingri eða verkfærum.
Blæðing
Munnvatn getur verið blóðlitað í nokkurn tíma eftir aðgerð, án þess að um teljandi blæðingu sé að ræða. Ef blæðing er veruleg, takið þá hreinan sárabindisvöndul eða grisju, setjið yfir sárflötinn og þrýstið eða bítið þétt saman í u.þ.b. hálfa klukkustund. Endurtakið, ef með þarf. Betra er að hafa hátt undir höfði, þegar lagst er fyrir. Ef blæðing stöðvast ekki, leitið þá tannlæknis.
Verkur
Þegar deyfing hverfur, má vænta óþæginda eða eymsla í sárinu svo og aðliggjandi vefjum. Léttar verkjatöflur eins og magnyl eða íbúfen hjálpa oft. Eftir stærri aðgerðir er ráðlagt að taka verkjatöflur nokkru áður en deyfing hverfur. Séu þrautir enn miklar þrátt fyrir lyfjagjöf, ber að tala við tannlækni.
Fæði
Borðið reglulega og sleppið ekki úr máltíðum. Neytið mjúkrar fæðu.
Mikilvægt er að:
Forðast heita drykki
Nota ekki tóbak eða áfengi fyrstu dagana eftir aðgerð.
Bólgur
Bólga er algeng og eðlileg svörun líkamans við skurðaðgerðum og á ekki að valda áhyggjum. Eftir meiriháttar aðgerðir er ráðlagt að nota kalda bakstra til að draga úr bólgum og verkjum. Gott er að nota kalt, rakt handklæði eða plastpoka með ísmolum á andlit yfir aðgerðastað, sérstaklega fyrst eftir aðgerð. Vaxi bólgan að ráði og hækki líkamshiti, ber að leita ráða tannlæknis.
Munnhirða
Skolið munninn sem minnst fyrsta daginn. Næstu daga er ráðlagt að skola með volgu vatni, gjarnan saltvatnsupplausn. Hreinsið tennurnar, en snertið ekki sárið sjálft með tannbursta. Munið að góð munnhirða er nauðsynleg eðlilegri græðslu sára.